Info Panel
You are here:   Home  /  Visual art  /  Private exhibition – Center of Visual Arts – Akureyri

Private exhibition – Center of Visual Arts – Akureyri

Finnur Arnar

Finnur Arnar sýnir hér nokkur verk sem geta hvert og eitt staðið ein og lifað sínu lífi, en eiga þó í innilegu og nánu samtali. Viðfangsefni sín sækir hann í hversdagslega reynslu sína og setur afraksturinn fram á hógværan og lágstemmdan máta. Hér er ekki stokkið fram með hrópum og köllum, né er heldur notast við æpandi liti eða sláandi texta. En viðfangsefni Finns eru í sjálfu sér allt annað en hversdagsleg, því þau varða meginstef í vegferð okkar mannanna, líf og dauða, sköpun og tortímingu og hinn hverfula tíma sem er hlutskipti okkar allra. Verk þessi hverfast því öðru fremur um spurningar sem lifað hafa með mannkyni frá örófi alda; spurningar um hvernig við getum öðlast merkingu í tilvist okkar.

Stór mynd af fjalli vekur hughrif um tímaskeið sem er ólíkt stærra í sniðum heldur en tími mannsins við hlið þess. Fjallið lifir jarðsögulegan tíma sem geymir í skauti sínu ris og hnig ótal lífvera. Í skjóli fjallsins lifir margvísleg fána og flóra, en við hlið þess heldur listamaðurinn ótrauður áfram sinni vegferð, vopnaður hagnýtu verkfæri til að ala önn fyrir sér og sínum. Hér er það goggur sem hefur í einfaldleika sínum aukið getu forfeðra okkar til að draga björg í bú. En gæði verkfærisins og gildi felur jafnframt í sér endilok æviskeiðs annarra lífvera. Þannig lifir maðurinn sjálfur á lífi. Yfir þessu hlutskipti mannanna vaka síðan fjöllin um aldir og ævi; að baki þeirra ríkir endalaus alheimurinn og jafnvel hann á sitt upphaf og endi.

Þvert yfir salarrýmið liggur svo ósýnilegur ás, sem er verkið „Fyrir og eftir”. Ás þessi er samsettur úr augnaráði Finns þar sem hann horfir í augun á sjálfum sér fyrir og eftir ófrjósemisaðgerð. Á einni myndinni er listamaðurinn frjór, en á hinni er hann ófrjór. Tilvísunin í getuna til að skapa af sér líf er þannig enn ein röddin sem kveður sér hljóðs í þessum verkum. Auk þess segir verkið manni að ákveðnum og afgerandi tímamótum hafi verið náð. Segja má að maðurinn sé vart samur á eftir.

Á öðrum stað er verk þar sem framréttir lófar kallast á við fjallið og lífsgöngu manna, og ítreka þannig verk mannskepnunnar í öllum sínum margbreytileika. Allt frá því að sögur hófust hafa hendur mannsins verið verkfæri sem geta hvort tveggja fóstrað líf og eytt því. Sú hugmynd hefur og löngum lifað með mönnum að lesa megi komandi lífshlaup þeirra með því að rýna í línur lófans og kannski er listamaðurinn að opna þannig sína eigin sögu. Framréttir lófar og fjall eiga sér samt líklega mesta sögu í trúarlegum texta og hvíslast á við annað verk.

Eftir endilöngum vegg salarins gefur að líta röð sjö mynda sem eru furðu fábrotnar og heillandi í senn. Þarna er að finna ýmsar kunnulegar smájurtir sem hafa barist fyrir tilvist sinni í hrjóstrugum hlíðum fjalla. Listamaðurinn hefur tínt þær upp eina af annarri og bundið enda á líf þeirra fyrir vikið. En hann hefur einnig ætlað þeim framhaldslíf og lagt þær af kostgæfni inn í Biflíu, þar sem síður bókarinnar hafa dregið í sig lífsafa þeirra.

Hending hefur ráðið hvar sérhver tegund hefur endað í þessum mikla sagnabálki sem hefur að líkindum haft hvað mest áhrif á vestræna siðmenningu undanfarin árþúsund. Þegar Biblían er síðan opnuð og mynduð virka jurtirnar eins og staðgenglar mannakorna, sem trúfastir menn hafa nýtt sér til að sækja sér styrk í þrautagöngu sinni í aldanna rás. Eins hafa jurtirnar vísun í blómstrið eina og titrandi tár og kallast þannig á við trúarlegan arf Íslendinga.

En því fer fjarri að Finnur ætli sér þá dul að geta svarað jafn rótgrónum spurningum um tilvist okkar manna með vísun í gömul trúarrit. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í von um að geta varpað ljósi á nokkur kunnugleg kennileiti, en rétt eins og leiðsögumaðurinn getur aðeins dregið fram nokkrar fábrotnar staðreyndir, þá er það ferðalangsins að draga sínar ályktanir af göngunn
Texti eftir:
Jóhann S. Bogason

 

Finnur Arnar vinnur með spurningar er varða líf og dauða og kemur auk þess inn á hugmyndir um hve tíminn er afstæður út frá viðmiðum hverju sinni. Vídeóverk hans og ljósmyndir mynda áhugaverða heild. Videomyndir af höndum virðast sem ljósmyndir en við nánari eftirgrennslan hreyfast þær örlítið. Að sögn listamannsins tákna þær upphaf og enda lífsins, þær bæði gefa líf og taka líf. Í fornri speki segir að við höfum líflínu í lófunum sem á að geta sagt eitthvað til um lengd lífs okkar. Hugmyndin um tímann og að öllu er afmörkuð stund, eins og segir í Biblíunni, kemur fram í videoverki Finns þar sem annars vegar eru sýndir berir fætur gangandi manns sem dregur með sér vopn til veiða og hins vegar fjöll sem hálfhulin eru í þoku og ógreinilegir fuglar fljúga í björgum. Hugsanlega á þetta að minna okkur á að skerpa athyglina og gefa okkur tíma til að njóta listarinnar.

Tími hverrar mannveru er stuttur miðað við tíma fjallanna en hann er líka stuttur í samanburði við sólkerfið. Biblían, frægasta bók okkar siðmenningar fjallar um sköpun heimsins; hér sjást 7 ljósmyndir af mismunandi þurrkuðum plöntum sem settar hafa verið inn í hana til geymslu. Með því að þurrka blóm getum við reynt að lengja tíma þeirra og notið þeirra lengur. Taka má þessa hugsun lengra og ímynda sér að manneskjan taki upp plönturnar með höndunum úr fjallshlíðunum og þær rotna svo og verða að mold aftur og úr henni koma ný blóm sem mannshöndin getur kippt upp o.s. frv. Endalaus hringrás.

Allt helst í hendur
Á sýningu Finns Arnars eru einnig tvær nokkuð stórar ljósmyndir af listamanninum teknum með sólarhrings millibili, þær eru staðsettar hvor á móti annarri og er líkt og þær horfist í augu. Fyrri myndin er tekin áður en listamaðurinn undirgekkst ófrjósemisaðgerð og sú seinni sólarhring síðar sem aftur veltir upp hugmyndum um sköpun og eyðileggingu. Áhorfandinn hefur á sýningunni möguleika á að skoða hluta af hringrás lífs og dauða, frjósemi og sköpunar og getur velt því fyrir sér hvernig eitt leiðir af öðru og í hvaða samhengi hlutirnir birtast okkur, eins og titill sýningarinnar gefur til kynna.
Aðspurður um hvaða listamenn honum finnst að hann tengist mest nefnir Finnur frönsku myndlistarkonuna Luise Bourgoise vegna þess að hún notar lífshlaup sitt og tilfinningar sem grunn að eigin verkum. Í þessu liggur sérstaða Finns Arnars í íslenskri myndlist, alla vega meðal karlkyns myndlistarmanna. Samvinna hans og eiginkonu hans Áslaugar Thorlacius og barna þeirra er alveg einstök á Íslandi en þau stóðu fyrir eftirminnilegri sýningu í Listasafni ASÍ, 2010.

Texti G. Pálína Guðmundsdóttir

 

  2013  /  Visual art  /  Last Updated November 10, 2014 by admin  /